Námskeiðslýsing

Öll íslenskunámskeið Liberis Fræðslumiðstöðvar fylgja námská Menntamálaráðuneytis í íslensku fyrir útlendinga.

ÍSLENSKA STIG 1 (A1.1)

Námskeið á stigi 1 er ætlað byrjendum þar sem nemendur læra íslenska stafrófið, framburð og grunnorðaforða. Nemendur æfa sig í að tala, skilja, lesa og skrifa grunnsetningar með fjölbreyttum námsaðferðum. Grunnmálfræði er kynnt í tengslum við námsefnið og nemendur fá þjálfun í framburði.

 

 

 

ÍSLENSKA STIG 2 (A1.2)

Námskeiðið er framhald af fyrsta stigi og hentar einnig þeim sem hafa öðlast grunnfærni í íslensku. Orðaforði er aukinn með það að markmiði að nemendur verði færir að nota einfaldar setningar sem tengjast daglegu lífi. Orðaforði er tengdur vinnu og daglegum athöfnum. Lögð er áhersla á tal, skilning, lestur og skrift með áherslu á daglegt mál með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Aukið er við málfræðikunnáttu í tengslum við námsefnið.

ÍSLENSKA STIG 3 (A2.1)

Námskeiðið er framhald af íslensku A1 og hentar einnig þeim sem hafa öðlast grunnfærni í íslensku á stigi A1. Kenndur er orðaforði tengdur daglegu lífi, veikindum, fjölskyldu, mat og starfi einstaklings. Einnig er lögð áhersla á að kynna íslenskt samfélag. Ýtt er undir sjálfstraust nemenda í að tjá sig á íslensku með áframhaldandi þjálfun í að tala, skilja, lesa og rita íslensku með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Málfræði er kennd áfram í tengslum við námsefnið.

ÍSLENSKA STIG 4 (A2.2)

Námskeiðið er framhald af íslensku A2.1 og hentar einnig þeim sem hafa öðlast grunnfærni í íslensku á stigi A1. Kenndur er orðaforði tengdur daglegu lífi, áhugamálum, heimili, veðri, útliti og starfi einstaklings. Einnig er lögð áhersla á að kynna íslenskt samfélag. Ýtt er undir sjálfstraust nemenda til að tjá sig á íslensku með áframhaldandi þjálfun í að tala, skilja, lesa og rita íslensku með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Framhald á málfræðináminu.

 

 

 

ÍSLENSKA STIG 5 (B1.1)

Námskeiðið er framhald af stigi A2 og hentar einnig þeim sem öðlast hafa sterkan grunn í íslensku. Enn er aukið við orðaforða með umfjöllunarefnum sem tengjast því að búa á Íslandi og samfélagsumræðunni á hverjum tíma. Fjölbreyttum kennsluaðferðum í tungumálakennslu er beitt. Þjálfun í ritfærni eykst. Aukið er við málfræðikunnáttu á grunni þess sem nemendur hafa nú þegar lært.

ÍSLENSKA STIG 6 (B1.2)

Námskeiðið er framhald af stigi B1.1 og miðast við þarfir þeirra sem hafa nokkuð góðan grunn í tungumálinu. Áfram er einblínt á þætti sem tengjast daglegu lífi og fjölskylduþörfum. Leitast er við að efla málskilning nemenda í aðstæðum sem upp kunna að koma í starfi, skóla og daglegu lífi. Lögð er áhersla á hæfni þátttakenda til að tjá tilfinningar sínar og skoðanir sem miðar að því að bæta tungumálakunnáttu og efla sjálfstraust. Lögð er áhersla á að þjálfa talað mál sem bætir lestrar- og ritfærni og málfræðilega þætti.

Íslenska fyrir skóla- og leikskólastarfsmenn 1-2

Námskeiðið miðar að því að bæta orðaforða á skóla- og leikskólasviði. Farið verður ítarlega í að bæta hagnýtan grunnorðaforða tengdum börnum, umhverfinu, klæðnaði, matarvenjum og líðan barna. Áhersla er lögð á samskipti við börn, foreldra og  samstarfsfólk á vinnustað og að undirbúa þátttakendur fyrir störf og virka þátttöku í atvinnulífi þar sem íslenska á grunn- og leikskólastigi er í forgrunni. Nemendur fá fjölbreytta þjálfun í helstu þáttum tungumálsins þar sem málfræði er samofin í samræmi við hæfniþrep.

Íslenska fyrir skóla- og leikskólastarfsmenn, stig 2-3 með inngangi að sjálfstyrkingu

Framhald af námskeiðinu „Grunníslenska fyrir skóla- og leikskólastarfsmenn stig 1-2“. Markmið námskeiðsins er að bæta og auka orðaforða sem notaður er í skóla og á leikskólum. Á námskeiðinu er ítarleg umfjöllun um hagnýtan orðaforða sem tengist daglegum störfum. Lögð er áhersla á samskipti við börn, foreldra og samstarfsfólk á vinnustað. Farið er í helstu atriði sjálfstyrkingar með það að markmiði að þátttakendur læri að efla sjálfsmynd sína. Fólk er styrkt í almennum samskiptum, bæði á vinnustað, við maka og fjölskyldumeðlimi o.s.frv. Málfræði er samþætt í samræmi við færni og þekkingarstig nemenda.

Íslenska fyrir skóla- og leikskólastarfsmenn, stig 3-4

Framhald af námskeiðinu „Íslenska fyrir skóla- og leikskólastarfsmenn stig 2-3“. Markmið námskeiðsins er að bæta og auka orðaforða sem notaður er í skóla og á leikskólum. Á námskeiðinu er ítarleg umfjöllun um hagnýtan orðaforða sem tengist daglegum störfum. Lögð er enn frekari áhersla á samskipti við börn, foreldra og samstarfsfólk á vinnustað. Farið er  ítarlegra í málfræði sem samþætt er í samræmi við færni og þekkingarstig nemenda.

Talþjálfun „Spjöllum saman”

Áhersla er lögð á að þjálfa þátttakendur í samræðum og frásögn í mismunandi aðstæðum. Námsefni og aðferðum er ætlað að koma til móts við þarfir þátttakenda. Forkröfur fyrir þetta 20 kennslutíma námskeið eru að nemendur hafi lokið íslensku á stigum 1, 2 (A1) eða hafi öðlast sambærilega kunnáttu. Áhersla er lögð á að þjálfa færni í frásögn og samræðum í mismunandi aðstæðum þar sem skerpt er á framburði, setningarfræði og grundvallarmálfræði. Nemendur þjálfa samræður um áhugaverð málefni gegnum fjölbreytta nálgun frá kennara.

Undirbúningsnámskeið fyrir íslenskupróf vegna ríkisborgararéttar

Meginmarkmið námskeiðsins er að undirbúa þátttakendur fyrir íslenskuprófið sem er partur af því ferli að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Aðallega er lögð áhersla á orðaforða og orðasambönd úr daglegu lífi nemenda er varða skóla, vinnu o.fl. Nemandinn öðlast þekkingu á orðaforða sem auðveldar honum að taka þátt í einföldum samræðum í daglegu lífi. Þar að auki er rétt stafsetning æfð, ásamt hlustunarskilningi og málfræði. Til að taka þátt í þessu námskeiði þarf nemandinn að hafa lokið 1. og 2. (A1) þrepi í íslensku eða öðlast sambærilega færni.