Námskeiðslýsing
Öll íslenskunámskeið Liberis Fræðslumiðstöðvar fylgja námská Menntamálaráðuneytis í íslensku fyrir útlendinga.
ÍSLENSKA STIG 1 (A1.1)
Námskeið á stigi 1 er ætlað byrjendum þar sem nemendur læra íslenska stafrófið, framburð og grunnorðaforða. Nemendur æfa sig í að tala, skilja, lesa og skrifa grunnsetningar með fjölbreyttum námsaðferðum. Grunnmálfræði er kynnt í tengslum við námsefnið og nemendur fá þjálfun í framburði.
ÍSLENSKA STIG 2 (A1.2)
Námskeiðið er framhald af fyrsta stigi og hentar einnig þeim sem hafa öðlast grunnfærni í íslensku. Orðaforði er aukinn með það að markmiði að nemendur verði færir að nota einfaldar setningar sem tengjast daglegu lífi. Orðaforði er tengdur vinnu og daglegum athöfnum. Lögð er áhersla á tal, skilning, lestur og skrift með áherslu á daglegt mál með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Aukið er við málfræðikunnáttu í tengslum við námsefnið.
ÍSLENSKA STIG 3 (A2.1)
Námskeiðið er framhald af íslensku A1 og hentar einnig þeim sem hafa öðlast grunnfærni í íslensku á stigi A1. Kenndur er orðaforði tengdur daglegu lífi, veikindum, fjölskyldu, mat og starfi einstaklings. Einnig er lögð áhersla á að kynna íslenskt samfélag. Ýtt er undir sjálfstraust nemenda í að tjá sig á íslensku með áframhaldandi þjálfun í að tala, skilja, lesa og rita íslensku með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Málfræði er kennd áfram í tengslum við námsefnið.
ÍSLENSKA STIG 4 (A2.2)
Námskeiðið er framhald af íslensku A2.1 og hentar einnig þeim sem hafa öðlast grunnfærni í íslensku á stigi A1. Kenndur er orðaforði tengdur daglegu lífi, áhugamálum, heimili, veðri, útliti og starfi einstaklings. Einnig er lögð áhersla á að kynna íslenskt samfélag. Ýtt er undir sjálfstraust nemenda til að tjá sig á íslensku með áframhaldandi þjálfun í að tala, skilja, lesa og rita íslensku með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Framhald á málfræðináminu.
ÍSLENSKA STIG 5 (B1.1)
Námskeiðið er framhald af stigi A2 og hentar einnig þeim sem öðlast hafa sterkan grunn í íslensku. Enn er aukið við orðaforða með umfjöllunarefnum sem tengjast því að búa á Íslandi og samfélagsumræðunni á hverjum tíma. Fjölbreyttum kennsluaðferðum í tungumálakennslu er beitt. Þjálfun í ritfærni eykst. Aukið er við málfræðikunnáttu á grunni þess sem nemendur hafa nú þegar lært.
ÍSLENSKA STIG 6 (B1.2)
Námskeiðið er framhald af stigi B1.1 og miðast við þarfir þeirra sem hafa nokkuð góðan grunn í tungumálinu. Áfram er einblínt á þætti sem tengjast daglegu lífi og fjölskylduþörfum. Leitast er við að efla málskilning nemenda í aðstæðum sem upp kunna að koma í starfi, skóla og daglegu lífi. Lögð er áhersla á hæfni þátttakenda til að tjá tilfinningar sínar og skoðanir sem miðar að því að bæta tungumálakunnáttu og efla sjálfstraust. Lögð er áhersla á að þjálfa talað mál sem bætir lestrar- og ritfærni og málfræðilega þætti.
Íslenska fyrir skóla- og leikskólastarfsmenn 1-2
Námskeiðið miðar að því að bæta orðaforða á skóla- og leikskólasviði. Farið verður ítarlega í að bæta hagnýtan grunnorðaforða tengdum börnum, umhverfinu, klæðnaði, matarvenjum og líðan barna. Áhersla er lögð á samskipti við börn, foreldra og samstarfsfólk á vinnustað og að undirbúa þátttakendur fyrir störf og virka þátttöku í atvinnulífi þar sem íslenska á grunn- og leikskólastigi er í forgrunni. Nemendur fá fjölbreytta þjálfun í helstu þáttum tungumálsins þar sem málfræði er samofin í samræmi við hæfniþrep.
Íslenska fyrir skóla- og leikskólastarfsmenn, stig 2-3
Framhald af námskeiðinu „Grunníslenska fyrir skóla- og leikskólastarfsmenn stig 1-2“. Markmið námskeiðsins er að bæta og auka orðaforða sem notaður er í skóla og á leikskólum. Á námskeiðinu er ítarleg umfjöllun um hagnýtan orðaforða sem tengist daglegum störfum. Lögð er áhersla á samskipti við börn, foreldra og samstarfsfólk á vinnustað. Farið er í helstu atriði sjálfstyrkingar með það að markmiði að þátttakendur læri að efla sjálfsmynd sína. Fólk er styrkt í almennum samskiptum, bæði á vinnustað, við maka og fjölskyldumeðlimi o.s.frv. Málfræði er samþætt í samræmi við færni og þekkingarstig nemenda.
Íslenska fyrir skóla- og leikskólastarfsmenn, stig 3-4
Framhald af námskeiðinu „Íslenska fyrir skóla- og leikskólastarfsmenn stig 2-3“. Markmið námskeiðsins er að bæta og auka orðaforða sem notaður er í skóla og á leikskólum. Á námskeiðinu er ítarleg umfjöllun um hagnýtan orðaforða sem tengist daglegum störfum. Lögð er enn frekari áhersla á samskipti við börn, foreldra og samstarfsfólk á vinnustað. Farið er ítarlegra í málfræði sem samþætt er í samræmi við færni og þekkingarstig nemenda.
Talþjálfun „Spjöllum saman”
Áhersla er lögð á að þjálfa þátttakendur í samræðum og frásögn í mismunandi aðstæðum. Námsefni og aðferðum er ætlað að koma til móts við þarfir þátttakenda. Forkröfur fyrir þetta 20 kennslutíma námskeið eru að nemendur hafi lokið íslensku á stigum 1, 2 (A1) eða hafi öðlast sambærilega kunnáttu. Áhersla er lögð á að þjálfa færni í frásögn og samræðum í mismunandi aðstæðum þar sem skerpt er á framburði, setningarfræði og grundvallarmálfræði. Nemendur þjálfa samræður um áhugaverð málefni gegnum fjölbreytta nálgun frá kennara.
Undirbúningsnámskeið fyrir íslenskupróf vegna ríkisborgararéttar
Undirbúningsnámskeið fyrir íslenska ríkisborgaraprófið í tungumáli er hnitmiðað og öflugt námskeið sem hefur það að markmiði að efla mál- og samskiptahæfni þátttakenda. Áhersla er lögð á fjölbreyttar æfingar, þar á meðal samræður, framburðarþjálfun, myndalýsingar og leiknar aðstæður, sem styðja við sjálfstæðari tjáningu og betri skilning á íslensku í daglegu lífi.
Auk þess er farið yfir helstu atriði íslenskrar málfræði með áherslu á hagnýta notkun, bæði í rituðu og töluðu máli.
Til að taka þátt í þessu námskeiði þarf nemandinn að hafa lokið 1. og 2. (A1) þrepi í íslensku eða öðlast sambærilega færni.